Í gær geindi Veiðin.is frá frumvarpi að nýjum lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Í dag hefur félag skotveiðmanna, Skotvís birt 83 athugasemdir við fyrirhugaða veiðilöggjöf og segir m.a. að á sumar þeirra hafi verið hlustað en ekki aðrar. Þá sé frumvarpið með þeim hætti að félagið geti ekki fallist á samþykki þess:
NÝ VEIÐILÖGGJÖF – ATHUGASEMDIR SKOTVÍS
Í tilefni af því að mælt var fyrir nýrri löggjöf um veiðar á Alþingi birtum við hér athugasemdir SKOTVÍS við frumvarpið.
Saga þessa frumvarps er mjög löng og hefir SKOTVÍS ítrekað sent inn athugasemdir í ferlinu, á sumar hefur verið hlustað en aðrar ekki. T.d. gerði SKOTVÍS 83 athugasemdir við fyrstu drög frumvarpsins.
Að mati SKOTVÍS er frumvarpið ekki með þeim hætti í dag að félagið geti fallist á samþykkt þess.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
Skuggasundi 1
101 Reykjavík
Reykjavík, 24.nóvember 2020.
Athugasemdir SKOTVÍS vegna III. draga að frumvarpi að endurskoðun á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
I. Inngangur
Árið 2010 skipaði þáverandi umhverfisráðherra nefnd sem átti að varpa skýru ljósi að lagalega stöðu villtra spendýra og fugla á Íslandi m.a. með tilliti til dýraverndarsjónarmiða og leggja fram tillögur um úrbætur með það að leiðarljósi að uppfylla ákvæði gildandi laga og alþjóðasamninga. Vinnan einskorðaðist ekki við að rýna framkvæmd villidýralaganna heldur átti nefndin að skoða málið í víðu samhengi þ.m.t. varðandi seli og hvali.
Í nefndinni sátu 8 manns frá helstu fræðastofnunum á sviði náttúrufræði og náttúruverndar auk fulltrúa Fuglaverndar og Skotveiðifélagi Íslands. Tilgangurinn var að stefna saman sérfræðingum með þekkingu á náttúruvernd, náttúrufræðum, veiðum og á alþjóðasamningum um veiðar og náttúruvernd til að taka saman heildaryfirlit um lagalega stöðu villtra dýra og og fugla og gera tillögur að úrbótum. Skýrsla nefndarinnar átti að vera sambærileg og hvítbók um náttúruvernd og ætlunin að lögfróðir sérfræðingar hefðu skýrsluna að leiðarljósi við samningu lagatexta nýrra villidýralaga.
Nefndin hafði það að leiðarljósi að veita sem víðtækasta yfirsýn um þau málefni sem henni var ætlað að skoða. Byggði vinna nefndarinnar á umfangsmiklu samráði við fagaðila og hagsmunaaðila. Fyrst var leitað eftir sjónarmiðum 77 aðila auk óformlegs samráðs. Eftir það lágu fyrir fyrstu drög skýrslu. Í öðrum áfanga mótaði nefndin fjölda meginreglna sem byggðu á alþjóðasamningum auk annars. Fór nefndin yfir tillögur sínar með hliðsjón af þeim. Við lok þeirrar vinnu lágu fyrir nokkuð fullbúin drög að skýrslu. Í þriðja áfanga var svo leitað eftir viðbrögðum 27 sérfræðinga og hagsmunaaðila. Með það fyrir augum að fyrirbyggja misskilning og skapa sem mesta sátt um tillögur nefndarinnar voru gerðar verulegar breytingar á texta skýrslunnar. Skýrslunni var svo skilað í apríl 2013. Skýrslan er 350 bls. auk formála og viðauka. Er óhætt að fullyrða að hún sé eitt umfangsmesta heildarrit um lagalega stöðu fugla og spendýra á Íslandi.
Í formála skýrslunnar kemur fram að vinna nefndarinnar sé fyrsti áfanginn í því ferli að semja nýtt lagafrumvarp sem taki til verndar, velferðar og veiða á villtum fuglum og villtum spendýrum. Nefndin lagði til að ný lög yrðu í þremur megin köflum þ.e. vernd, velferð og veiðar. Taldi nefndin eðlilegt að gera bæði verndar- og velferðarsjónarmiðum hærra undir höfði án þess að það kæmi niður á sjálfbærri nýtingu eða réttlætanlegum veiðum til að koma í veg fyrir tjón.
Skotveiðifélag Íslands telur að sá grunnur sem lagður var með greindri skýrslu með ítarlegri rannsókn og á grundvelli víðtæks samráðs við hagsmunaaðila og helstu sérfræðinga sé góður grunnur til að byggja frumvarpsdrögin á.
Tæplega 7 ár eru nú liðin frá gerð skýrslunnar en fyrst nú er hafist handa við endurskoðun laganna. Ráðuneytið óskaði eftir tilnefningu félagsins í starfshóp um endurskoðun laganna í mars á síðasta ári þ.e. 2019.

II. Athugasemdir
I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
2. grein Gildissvið.
Félagið leggur áherslu að að selir falli undir ákvæði laganna enda engin málefnaleg rök til annars m.a. til að tryggja vernd og velferð sela.
3. grein, atriði 29
Skilgreina þarf mun betur hvað átt er við um sjálfbærar veiðar, það er grunnurinn að veiðistjórnun og margar skilgreiningar í gangi. Í raun og veru ætti að vera sérstakur kafli í lögunum eða greinargerð um hvað teljast vera sjálfbærar veiðar,hvaða tímaramma er miðað við og viðgangi stofns í sögulegu tilliti.
3. grein, almennt
Í lögunum er kafli um friðlýsingu æðarvarpa og heimilid til þess en hinsvegar er æðarvarp hvergi skilgreint í lögum.
II. KAFLI Stjórnsýsla.
4. Grein – engar athugasemdir
5. grein
Skotvís leggur ríka áherslu á að verkefnaskipting sér algjörlega skýr á milli stofnana og telur að vinna eigi út frá þeirri megin línu að Náttúrufræðistofnun Íslands sinni rannsóknum og ráðgjöf en öll stjórnsýsla varðandi veiðar og ráðgjöf, þar með talið tillögugerð um veiðikvóta og veiðitímabil til ráðherra, sé hjá Umhverfisstofnun. Skoða þurfi ákvæði 6 og 7 m..t.t. þess. Til dæmis er eðlilegt að NÍ reikni út veiðiþol til Umhverfisstofnunar, Umhverfisstofnun útfærir svo veiðistjórnunartillögur fyrir þann stofn mtt til þeirra og sendir til ráðherra. Það má líka leiða rökum að því að NÍ sjái um að leggja til friðun en Umhverfisstofnun verndi. SKOTVÍS legur til þá breytingu að lokaorð greinarinnar verði. Matvælastofnun fer með málefni er snúa að velferð villtra fugla og villtra spendýra sem eru í haldi.
6. grein
SKOTVÍS leggur til að verkefni um Válista verði fellt inn lög um NÍ og tekið út úr þessari löggjöf.
7. grein
Umhverfisstofnun fer með veiðistjórnun, hefur umsjón með veiðum á villtum dýrum og villtum fuglum, sér um framkvæmd námskeiða og hæfnisprófa til undirbúnings veiðum á villtum fuglum og villtum spendýrum, veitir fræðslu og leiðbeiningar vegna nytjaveiða og aðgerða til varnar tjóni, sér um útgáfu veiðikorta og veiðileyfa og veitir tímabundna….
SKOTVÍS leggur til eftirfarandi breytingu
Umhverfisstofnun er heimilt að framselja rekstur og umsjón námskeiða og útgáfu veiðikorta til samræmis við verklag í nágrannalöndum okkar.
8. grein
Samráð við Matvælastofnun á einungis að eiga sér stað ef villtu dýri er haldið föngnu.
III. KAFLI Vernd og velferð villtra fugla og villtra spendýra.
9. Grein – engar athugasemdir
10. grein
„Óheimilt er að þeyta flautur, fljúga þyrlum, flygildum eða öðrum loftförum, sigla hávaðamiklum skipum eða bátum eða vera með annan hávaða að óþörfu við selalátur á tímum kæpingar og hárfellis… “
Og við sem héldum að selir heyrðu ekki undir þessi lög.
„Enn fremur er óheimilt á varptíma að hleypa af skoti á landi nær sömu stöðum en 200 m og á sjó nær en 2 km. “
Þessar fjarlægðartakmarkanir hljóta að eiga bara við um varptímann. Einnig verður að fylgja með viðauki með skrá yfir hvað teljast vera fuglabjörg samkvæmt þessum lögum svo og selalátur.
„Óheimilt er að veiða fugla í sárum eða ófleyga unga“.
Hér er verið að loka á hefðbundnar hlunnindaveiðar, t.d. veiðar á fýlsungum. Slíkar veiðar eru hluti af staðbundinni menningu og hafa ríkt menningarsögulegt gildi. SKOTVÍS leggst alfarið gegn þessu banni. UNESCO hefur bent á að hlunnindaveiðar hafi ríkt menningarsögulegt gildi og t.d. nefnt veiðar með fálkum sem dæmi.
11. grein
Hér er mikið ósamræmi í lagabálkum því í dýraverndarlögum er líka bálkur um villt dýr, kafli VII. Einfaldast er að hafa bálk um villt dýr og velferð þeirra í þessum lögum og fella þá út bálkinn í dýraverndarlögum. Það hefur valdið miklum misskilningi meðal almennings. SKOTVÍS leggur í siðareglum sínum einmitt mikla áherslu á velferð dýra og virðingu gagnvart þeim og telur þennan kafla ákaflega mikilvægan í lögunum.
Koma skal sjúku, særðu eða bjargarlausu villtu dýri til bjargar ef þess er nokkur kostur eða tilkynna slík atvik til lögreglu. Heimilt er að aflífa slík dýr á skjótan og sem sársaukaminnstan hátt ef sýnt þykir að ekki sé unnt að veita því viðunandi bjargir.
Hefur lögreglan ekkert betra að gera en að taka við símtölum frá fólki sem finnur “bjargarlausa” unga um sumartímann? Yfirleitt eru foreldrarnir skammt frá og bíða þess að “björgunarfólkið” fari í burt svo náttúran geti haft sinn gang. Enda brjóta slíkar björgunaraðgerðir í bága við fyrsta markmið laga þessara, þarna fær náttúran ekki að þróast eftir eigin lögmálum.
1. Villtir fuglar og villt spendýr fái að þróast eftir eigin lögmálum.
12. grein – engar athugasemdir
13. grein – engar athugasemdir
14. grein
SKOTVÍS vísar í nefndarálit um hvítabirni. Að mati félagsins skal fella alla hvítabirni sem berast til landsins því á einhverjum tímapunkti muni fólki stafa hætta af. Óþarfi er að bíða eftir fyrsta alvarlega slysinu til að setja slíka verklagsreglu.
Ástæðurnar eru einfaldar.
1) Hvítabirnir eru stórvirk drápstæki fullkomnuð af náttúrunni, þau líta ekki á manninn sem vin heldur auðvelda bráð.
2) Til að fanga hvítabjörn svo vel takist til útfrá dýraverndarsjónarmiðum sem útlistuð eru í þessum drögum þarf sérþjálfað teymi sem bjargar nokkrum slíkum á ári ásamt því að stunda æfingar. Slíkt teymi er ekki staðar á Íslandi. T.d. þarf sérþjálfað auga til að meta stærð og þyngd ísbjarnar en það er lykilatriði svo magn svefnlyfs sem skotið er í hann sé nægilegt til að svæfa hann en ekki drepa.
3) Takist svo ótrúlega vel til að ísbjörninn er fangaður lifandi þá blasir við nýtt vandamál. Enginn vill taka við honum. Dýragarðar vilja ekki slík dýr og ekki má flytja hann neitt vegna sjúkdómavarna s.s. hundaæðis. Eftir svæfingu má aðeins flytja hann í klst áður en hann er vakinn aftur. Annars deyr hann vegna ofkælingar.
4) Sé fullorðinn fangaður ísbjörn settur í dýragarð mun honum líða illa á hverjum degi uppfrá því. Slíkt væri dýraníð.
Hér skortir kjark til að horfast í augu við augljósar ískaldar staðreyndir en frekar reynt að draga upp óraunverulega fantasíu um „björgunaraðgerðir“. Ísbjörnum hefur fjölgað undanfarin ár og er stofninn núna um 25.000-30.000 dýr. Einn og einn ísbjörn sem þvælist til íslands á nokkura ára millibili er ekki mikilvægur í stofnvisfræðilegu tilliti.
IV. KAFLI Válistar, stjórnunar- og verndaráætlanir.
SKOTVÍS gerir athugasemd við yfirheiti þessa kafla, hann á bara að heita Stjórnunar-og verndaráætlanir. Válistar eru vissulega hafðir til hliðsjónar við gerð þeirra en um þá skal fjalla sérstaklega í lögum um NÍ eins og SKOTVÍS hefur áður bent á.
15. grein
Hér er verið að leggja til beintengingu Válista við lagasetningu. Það er áhugavert þar sem á ráðstefnu um Válista sem haldin var í Reykjavík árið 2018 tók yfirmaður IUCN Red List Unit (Craig Hilton-Taylor) það sérstaklega fram að ALLS EKKI mætti beintengja listana við lagasetningu. Þeir væru byggðir á bestu fáanlegri þekkingu, áhugamanna sem sérfræðinga, og væru alls ekki fullkomnir. Hinsvegar væru þeir nothæfir til að flagga viðvörunarflöggum sem ætti þá að skoða sérstaklega í hverju tilviki. Reyndar er íslenska orðið VÁLISTI sérstaklega sterkt orð og ætti listinn frekar að heita ATHUGUNARLISTI í ljósi orða þeirra sem halda utan um listana erlendis. Reyndar veit SKOTVÍS engin dæmi þess að téðir válistar séu beintengdir inn í veiðilöggjöf neinsstaðar í heiminum, kannski vegna þess að IUCN hefur varað sérstaklega við því.
SKOTVÍS leggst því alfarið gegn því að þessir listar séu beintengdir við lagasetningu veiðilöggjafar en setja má inn í lög um NÍ að gerð „Válista-Athugunarlista“ sé eitt af hlutverkum þeirra stofnunar.
16. grein
Skotvís leggur áherslu á virka veiðistjórnun ( Adaptive Harvest Management). Ákvæðið þarf að taka mið af þeirri hugmyndafræði. Skoða þarf ákvæði m.t.t. þess. Hlutverk stofnananna þarf líka að vera skýrt m.t.t. athugasemdar að framan um hlutverk NÍ og UST. Samkvæmt þessum kafla þá er ekki stefnan að nýta þessa stofna heldur bara að stjórna og vernda.
V.KAFLI Aflétting friðunar villtra fugla og villtra spendýra.
17. grein
Skotvís fagnar því að hér hafi verið breytt um orðalag í samræmi við athugasemdir félagsins.
Ákvörðun sé byggð á sjálfbærni stofns eða tegundar þannig að viðkoma verði nægileg til lengri tíma til þess að vega upp á móti afföllum við afléttingu friðunar, nema stjórnunar- og verndaráætlun geri ráð fyrir að fækka í stofninum.
Fyrra orðalag benti til þess að allir stofnar séu í jafnvægi frá ári til árs og engar náttúrulegar sveiflur séu til staðar. Stofnar veiðidýra eru mjög mismunandi, sumir taka dýfu en ná síðan „jafnvægi“ til lengri tíma, aðrir sveiflast út og suður eftir sveiflum í fæðuframboði. Íslenski heiðagæsastofninn er mjög gott dæmi, Hann er nú sögulegu hámarki, telur hundruðir þúsunda gæsa; líklegt er að sá stofn muni taka dýfu á næstu árum. Eru veiðar úr honum þá ekki lengur sjálfbærar? Hvað með lundann þar sem stofninn fyrir sunnan land lætur á sjá vegna lítils fæðuframboðs en er að styrkjast fyrir norðan landið það sem fæðan er meiri…
Sjálfbærni veiða er skilgreint í verndaráætlunum með virkri veiðistjórnun þar sem hámörk og lágmörk eru skilgreind í vissum tímaramma sem tekur mið af stofnsveiflu tegundarinnar til lengri tíma.
18. grein
Skotvís leggur til að eftirfarandi grein verði felld út. Slíkar áætlanir verða aldrei annað en lélegar ágiskanir sem þjóna litlum tilgangi. Stjórnunar-og verndaráætlunin tekur á þessum atriðum í meginmáli.
Sé í stjórnunar- og verndaráætlun lagt til að tjón eða áhætta á tjóni geti verið þess eðlis að það réttlæti veiðar í ákveðnum tilvikum, s.s. við friðlýst æðarvörp, skal gera grein fyrir því í hvaða tilvikum eða við hvaða aðstæður slíkar veiðar komi til greina. Þar skal jafnframt gerð grein fyrir áætluðum áhrifum á sjálfbærni viðkomandi tegundar eða stofns og áætluðu veiðiálagi.
19. grein – engar athugasemdir
VI.KAFLI Veiðar.
20. grein
Eins og áður hefur komið fram í þessum athugasemdum þarf að skilgreina hugtakið sjálfbærni m.t.t. veiða. Margar skilgreiningar eru í gangi og stofnanir ósammála um orðalag.
21. grein – engar athugasemdir
22. grein –
Á friðlýstum svæðum eru veiðar heimilar nema sérlög, friðlýsingarskilmálar eða stjórnun- ar- og verndaráætlanir sem gilda um svæðið mæli fyrir um annað.
SKOTVÍS óskar eftir rökstuðningi á því hvernig sjálfbærar veiðar sem annars eru almennt leyfðar geti ógnað friðlýsingum á búsvæðum dýra, jarðmyndunum, víðernum eða þjóðgörðum sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Það hefur verið lenska að banna veiðar pro forma þegar svæði eru friðlýst án nokkurs rökstuðnings m.t.t. til tilgangs friðlýsingar. Rökin hafa oft litast af fáfræði og fordómum í garð skotveiðimanna. Mál er að linni.
23. grein- engar athugasemdir
24. grein Veiðiaðferðir
SKOTVÍS bendir á mikið ósamræmi í lagasetningu löggjafans þar sem í lögum um velferð dýra frá 2013. nr.55 kafla VII, 27. grein stendur:
Ráðherra setur í reglugerð, að höfðu samráði við ráðherra er fer með stjórn veiða, vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra, nánari ákvæði um aðferðir við veiðar.
Enn og aftur bendir SKOTVÍS á að Veiðiaðferðir og Velferð villtra dýra eru best geymd á einum stað. Í einum lagabálk undir einu ráðuneyti. Þarna á Kristján að tala við Mumma um hvaða veiðiaðferðir eigi að gilda og setja síðan inn í reglugerð. Rétti upp hönd sem finnst þetta asnalegt.
SKOTVÍS fagnar þeirri breytingu að veiðimönnum sem eru fatlaðir fái heimild til að nota vélknúinn farartæki á veiðum.
Einnig leggur SKOTVÍS til að bogveiði verði bætt við sem leyfilegri veiðiaðferð til samræmis við Norðurlöndin.
25. grein- engar athugasemdir
VII. KAFLI Veiðikort og hæfni til veiða.
26. grein
„Umhverfisstofnun semur námskrá og heldur námskeið til undirbúnings hæfnisprófum. Umhverfisstofnun er heimilt að fela aðilum, sem hafa til þess þekkingu og reynslu að mati stofnunarinnar, að halda slík námskeið í sínu umboði.“
SKOTVÍS leggur til að greininni sé breytt enda eru námskeiðin rekstur og vandséð af hverju slíkur rekstur eigi að vera á höndum hins opinbera. Félagið skorar á stjórnvöld að líta til Norðurlanda í þessu atriði þar sem landssamtök skotveiðimanna sjá um þessa fræðslu, veiðimenn uppfræða veiðimenn.
SKOTVÍS hefur t.d. aðgang að öllu námsefni hinna Norðurlandanna endurgjaldslaust ef óskað er eftir því, getur hafið rafræna kennslu fljótlega á næsta ári með sama módeli og ökuskólar eru reknir í dag.
Skotveiðisamband Danmerkur var t.d. að hljóta verðlaun danskra bókaútgefenda fyrur námsefni sitt.
Það er óþarfi að finna upp hjólið, hjólum í þetta sem fyrst.
Því leggur SKOTVÍS til að greinin hljómi svo:
„Umhverfisstofnun semur námskrá og leggur fyrir hæfnispróf. Umhverfisstofnun skal fela aðilum, sem hafa til þess viðamikla þekkingu og reynslu í málefnum tengdum veiði, að halda námskeið til undirbúnings hæfnisprófum í sínu umboði, til samræmis við nágrannalönd okkar. “
Það skýtur skökku við að þeir sem taka egg þurfi ekki að sanna hæfni sína t.d. með því að þekkja í sundur egg friðaðra fugla og annara. Það er ef eggjataka verður færð inn í veiðikortakerfið.
27. grein
SKOTVÍS leggst gegn því að eggjataka sé færð inn í veiðikortakerfið, það mun einungis flækja framkvæmdina. Vandséð er hvernig á að nota slík gögn við veiðistjórnun.
SKOTVÍS leggur einnig til eftirfarandi breytingu á greininni.
Til skotveiða er heimilt að gefa út veiðikort við 20 ára aldur. Einstaklingi yngri en 20 er heimilt að stunda veiðar í fylgd með veiðimanni sem haft hefur veiðikort í a.m.k. 4. ár.
Samkvæmt greininni þarf veiðikort til minkaveiða.
28. grein
SKOTVÍS leggst gegn því að eggjataka sé færð inn í veiðikortakerfið, það mun einungis flækja framkvæmdina. Félagið sér ekki tilganginn í því að óska eftir á hvaða jörð þau voru týnd, hér er löggjafinn að krútta yfir sig og nær hámarki þegar líka er óskað eftir því að gefa upp fugla sem drepast við netaveiðar. Eru netaveiðar veiðikortsskyldar? Í hvað á að nota þessi ófullkomnu gögn?
Hvaða skrifffinsku óráðsíu drauma er verið að uppfylla hérna?
VIII. KAFLI Fuglaveiðar.
29. grein
SKOTVÍS gerir alvarlegar athugasemdir við þessa upptalningu. Ein af meginniðurstöðum skýrslunnar sem vitnað er í og er grunngagn nýju laganna er sérstaklega tekið fram að mun fleiri tegundir þoli takmarkaðar veiðar en eru ekki nýttar.
Reyndar er það þannig að allar tegundir þola veiðar, hvernig nýtingin á sér stað og með hvaða hætti er bara veiðistjórnun með sjálfbærni að leiðarljósi. Sérstaklega skal bent á það að veiðimenn hafa sýnt mikinn skilning og ábyrgð þegar stofnar eiga undir högg að sækja. T.d. hefur rjúpnaveiðin minnkað úr 168.000 fuglum þegar hún var mest niður í 35-50.000 fugla á ári. Veiðiálagið hefur minnkað úr 30% í 10% sem er vel innan sjálfbærnimarka til lengri tíma og í sögulegu samhengi. Þrátt fyrir aukningu leyfilegra veiðidaga hefur veiðiálag ekki aukist.
Annað dæmi er lundastofninn þar sem veiðin hefur minnkað úr rúmlega 200.000 fuglum í 25.000 á ári. Veiðiálagið er núna um 0,5%-1% af stofninum sem er vel sjálfbært og hefur því hverfandi áhrif á viðkomu hans til lengri tíma og í sögulegu tilliti. Enda vita allir að veiðar eru ekki ástæða þess að svartfuglar eigi undir högg að sækja heldur fæðubrestur og áhrif loftslagsbreytinga.
SKOTVÍS leggur til að eftirfarandi málsgrein verði bætt við.
Ef NÍ metur að tegund ,sem er ekki talin upp hér að ofanverðu, þoli veiðar þá getur ráðherra heimilað veiðar úr tegundinni samkvæmt stjórnunar-og verndaráætlun.
SKOTVÍS leggur einnig til að þær tegundir sem leyfilegt er að veiða til að verjast tjóni verði áfram taldar upp í lögunum og verði svo þangað til búið er að gera stjórnunar-og verndaráætlanir fyrir þær tegundir og meta tjón af þeirra völdum.
30. grein-
Hérna er verið að fanga villt dýr. Er þetta þá ekki á könnu MAST? Þurfa þeir ekki að gefa út merkingarleyfi og halda próf?
IX. KAFLI Nýting hlunninda
31. grein- engar athugasemdir
32. grein
SKOTVÍS dregur í efa að hægt sé að skerða eignarrétt annara með því að friðlýsa yfir jarðamörk. Félagið bendir aftur á það að skilgreining á því hvað telst æðarvarp vantar inn í lögin.
33. grein- engar athugasemdir
34. grein
SKOTVÍS leggur til að ungataka fýls verði áfram leyfð. Ef ekki þá er óskað eftir því að greinargerð fylgi þar sem fram komi hvar slík ungataka sé bönnuð samkvæmt alþjóðlegum samningum ef ungatakan er sjálfbær. Einnig hvort undanþáguákvæði eru í samningnum ef slíkar veiðar eru í litlum mæli.
X. KAFLI Hreindýraveiðar
35. grein- engar athugasemdir
36. grein- engar athugasemdir
37. grein- engar athugasemdir
38. grein- engar athugasemdir
39. grein- engar athugasemdir
40. grein- engar athugasemdir
41. grein- engar athugasemdir
IX. KAFLI Veiðar til varnar tjóni
42. grein- engar athugasemdir
43. grein- engar athugasemdir
44. grein- engar athugasemdir
45. grein- engar athugasemdir
XII. KAFLI Framandi dýrategundir, ágengar framandi dýrategundir og villingar.
46. grein- engar athugasemdir
47. grein-
Veiðar á mink eru öllum heimilar sem hafa veiðikort.
Hér er breyting frá fyrri lögum.
XIII. KAFLI Sala á veiðifangi og eggjum. Starfsemi hamskera.
48. grein- engar athugasemdir
49. grein- engar athugasemdir
XIV. KAFLI Eftirlit og framkvæmd eftirlits.
50. grein
Félagið er hlynnt frekara eftirliti með veiðum. Félagið telur hins vegar að það þarfnist ítarlegri skoðun að búa til sérstaka veiðiverði í stað þess að nýta lögreglu til starfans. Hver eru rökin fyrir því og hvaðan munu koma fjármunir til þess? Hvaða valdheimildir munu þessir eftirlitsmenn hafa?
SKOTVÍS mótmælir því harðlega að veiðieftirlit sé greitt úr veiðikortasjóði. Það hlýtur reglubundnu eftirliti lögreglu og starfsskyldum landavarða. Ekki er bent á nein rök því til stuðnings að aukið eftirlit þurfi á veiðislóð.
51. grein- engar athugasemdir
52. grein Umhverfisstofnun skal við framkvæmd eftirlits leita aðstoðar lögreglu hafi hún rökstuddan grun um að framið hafi verið brot sem rannsaka þurfi frekar eða hún telji það nauðsynlegt til að framfylgja heimildum samkvæmt þessarar grein.
Þarna kemur í ljós veikleikinn við þetta „eftirlit“. Það eru engar valdheimildir. Veiðiverðir geta ekki handtekið, stöðvað eða neytt fólk til að gefa upplýsingar.
XV. KAFLI Réttarfar, refsingar og viðurlög.
53. grein- engar athugasemdir
XVI. KAFLI Reglugerðarheimildir, gjaldtökuákvæði og úthlutun arðs af hreindýraveiðum.
54. grein- engar athugasemdir
55. grein Gjaldtaka
SKOTVÍS gerir alvarlega athugasemd við upphæð veiðikortsins og að ekki var sett inn upphæð veiðikorts í drögin sem voru lögð inn til athugasemda almennings. Skotveiðimönnum var lofað á sínum tíma að gjaldið myndi ekki hækka og var það hluti af þeirri sátt sem var um kerfið. Á þeim forsendum beitti félagið sér fyrir því að kerfinu yrði komið á. Samkvæmt uppreiknaðri upphæð ætti veiðikortið núna að vera um 5.000- kr.
Skotvís leggur til að fjárhæðin renni beint í veiðikortasjóð en ekki í ríkissjóð.
Félagið leggur til að bætt sé við stofngrein um VEIÐIKORTASJÓÐ, tilgang, fjármagn og úthlutun. Í sjóðnum sitji tveir aðilar frá SKOTVÍS, einn frá FLMH, einn frá Fuglavernd, einn frá Umhverfisstofnun og einn frá UAR. Sjóðurinn setji sér úthlutunarreglur og birti uppgjör ár hvert og stöðu sjóðsins.
Félagið telur að setja ætti ákvæði í lög sem kveði beint á um að hluti gjaldsins renni til félagsins til rekstrar enda leggur félagið á hverju ári fram mikla vinnu í samstarfi við stjórnvöld. Það er öllum hagur að félagið sé öflugt til að geta tekið þátt í slíkri vinnu. Í dag er slíkt félag ekki rekið nema með launuðum starfsmönnum og því nauðsynlegt að trygga rekstrargrundvöll félagsins til framtíðar á einn eða annan hátt.
Félagið er tilbúið að taka að sér að reka veiðikortakerfið á hagkvæmari hátt en nú er gert en það gæti skapað rekstrargrundvöll fyrir félagið til framtíðar sem gagnast myndi bæði stjórnvöldum og félaginu. Þá þarf að kveða á um hámarkskostnað við rekstur kerfisins en það var hluti af sáttinni um kerfið í upphafi.
„Tíu prósent af innkomu veiðikorta ár hvert skal renna óskipt til Skotveiðifélags Íslands vegna almennrar fræðslu félagsins til veiðimanna. “
Félagið fá ofangreinda heimild inn í lög. SKOTVÍS er eini aðilinn á landsvísu sem uppfræðir veiðimenn um siðfræði á jafningjagrundvelli þar sem veiðimenn uppfræða aðra veiðimenn. Siðareglur félagsins voru settar strax við stofnun þess fyrir rúmum 40 árum og eru enn í fullu gildi.
Hjá Umhverfisstofnun má gera ráð fyrir að fjölga þurfi starfsmönnum um sem nemur þremur stöðugildum og að árlegur viðbótarkostnaður geti legið á bilinu 45–50 millj. kr. Gert er ráð fyrir að hluti af kostnaði Umhverfisstofnunar vegna veiðistjórnunar greiðist með fjárveitingum sem tengjast tekjum af veiðikortum sbr.
1. tölul. 55. gr.
SKOTVÍS óskar eftir sundurliðun á þessari mannaflaþörf og hvaða stöðugildi eru nú þegar á sviði veiðistjórnunar. Félagið ítrekar boð sitt um að reka námskeiðin og veiðikortakerfið á hagkvæmari hátt.
Ráðherra ákvarðar fjárveitingar Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands til rannsókna, vöktunar, gerðar stjórnunar- og verndaráætlana fyrir veiðistofna, veiðieftirlits og stýringar á stofnum villtra fugla og villtra spendýra á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum að fengnum tillögum Umhverfistofnunar.
SKOTVÍS mótmælir því harðlega að veiðieftirlit sé greitt úr veiðikortasjóði. Það hlýtur reglubundnu eftirliti lögreglu og starfsskyldum landavarða. Ekki er bent á nein rök því til stuðnings að aukið eftirlit þurfi á veiðislóð.
56. grein
SKOTVÍS leggur til að arður sem innheimtur er af jörðum í ríkiseigu renni til Félags Leiðsögumanna með Hreindýraveiðum. Upphæðin mun styrkja innri starfsemi þess félags og auka fræðslu til félagsmanna.
XVII. KAFLI Gildistaka
57. grein- engar athugasemdir
GREINARGERÐ MEÐ FRUMVARPI
SKOTVÍS bendir á þann drátt sem hefur orðið á samningu laga þessara frá útgáfu skýrslunnar 2012. Á þeim tíma hefur Sigmar B. Hauksson fyrrum formaður SKOTVÍS og Páll Hersteinsson fyrrverandi veiðistjóri báðir fallið frá langt fyrir aldur fram. Því er ekki hægt að leita til þeirra um þá vinnu og verklag sem var viðhaft við samningu skýrslunnar. Þeir voru helstu sérfræðingar vegna veiða í starfshópnum.
Í greinargerð með frumvarpinu fylgir upptalning á helstu meginmarkmiðum.
SKOTVÍS er ekki sammála eftirfarandi fullyrðingum:
Aukin áhersla á dýravernd og velferð villtra fugla og villtra spendýra. Ekki er séð að brýn nauðsyn hafi verið til að auka áherslu á dýravernd enda var nokkuð góður kafli um það í eldri lögum. SKOTVÍS bendir á það flækjustig sem er orðið á milli þessara laga og núverandi laga um dýravernd og velferð dýra.
Válistar vegna villtra fugla og villtra spendýra lögfestir ásamt tilteknum réttaráhrifum slíkra lista. SKOTVÍS mótmælir harðlega að slíkt sé gert enda í algerri andstöðu við varnaðarorð sérfræðinga IUCN á ráðstefnu sem haldin var á Íslandi 2017. Eðlilegra sé að þetta sé lögfest skylda NÍ í sérlögum um stofnunina en litið til listana við gerð stjórnunarog verndaráætlana.
Breytingar á veiðikortakerfinu til einföldunar.
SKOTVÍS sér ekki að taka eggjatöku inn í kerfið verði til einföldunar. Hvað þá að fuglar sem deyji í netalögnum skuli settir á veiðiskýrslur. Ef hávella flækist í net hjá landeiganda sem stundar ekki veiðar á fuglum eða spendýrum, hvaða líkur eru á því að viðkomandi þekki öndina? Reynsla SKOTVÍS er sú að tegundaþekking er almennt alvaralega ábótavant hjá þeim sem hafa ekki setið námseið í tegundagreiningu. Þessi gögn verða í besta falli brotakennd, óáreiðanleg og einskisnýt.
Hvað með unga/fugla sem keyrt er yfir eða lenda á bílum…og fugla sem fljúga á raflínur og girðingar? á ekki að skrá þá líka?
Áréttað er að ekki er um tæmandi athugasemdir að ræða. Lögin ásamt greinargerð eru 64 bls að lengd og voru sett inn í samráðsgátt á sumarleyfistíma. Það gefur augaleið að fyrir félagasamtök í sjálfboðaliðastarfi og almenning er þessi tímarammi mjög knappur. Þau hafa líka tekið mjög miklum breytingum á milli útgáfa sem hafa ekki verið sérlega rekjanlegar.
Minnt er á að Skotveiðifélag Íslands skilgreinir sig sem náttúru-og umhverfisverndarsamtök enda má fullyrða að félagsmenn þess eru miklir útivistar- og náttúruunnendur. Veiðimennskan er einungis grein af meiði útivistartrésins. Félagið vill minna á að það sé ekki eingöngu skylda yfirvalda að vernda villt dýr heldur beri einnig að halda í og vernda þann hluta menningararfsins sem veiðimennskan er. Skotveiðifélag Íslands telur sig með rúmlega 40 ára starfi hafa lagt drjúgan skerf til þess. Nefna má að strax í upphafi setti félagið sér ítarlegar siðareglur þar sem dýravernd og náttúruvernd er gert hátt undir höfði.
Virkir félagar eru í dag um 2.400 en heildarfjöldi félaga á skrá eru um 5.000.
Með einlægri von um áframhaldandi gott samstarf málefninu til framdráttar.
Virðingarfyllst,
f.h. Skotveiðifélags Íslands,
Áki Ármann Jónsson, formaður